Birt 28.02.2025

Norrænir ráðherrar opna á sameiginlega samgöngustefnu

Norrænu samgönguráðherrarnir hafa brugðist við tilmælum Norðurlandaráðs 11/2024, þar sem Flokkahópur miðjumanna lagði til að Norðurlöndin skipulegðu samgönguáætlanir sínar til að bæta skipulag samgangna þvert á landamæri sín. Ráðherrarnir eru nú tilbúnir fyrir sameiginlega norræna samgöngustefnu.

Vilja nánara samstarf um samgönguinnviði

Flokkahópur miðjumanna hefur um nokkurt skeið lagt áherslu á mikilvægi norrænnar ráðherranefndar um samgöngumál og er það málefni endurtekið umræðuefni í Norðurlandaráði. Með fullum stuðningi Norðurlandaráðs hefur flokkahópurinn hvatt norrænu ríkisstjórnirnar til að hafa nánara samstarf um samgönguáætlanir sínar og gera forgangslista yfir hindranir á landamærum sem koma í veg fyrir norræna samþættingu.

– Norræn samgönguverkefni þurfa oft að víkja fyrir forgangsröðun innan landanna sjálfra. Við viljum breyta því með því að setja norrænar þarfir skýrar á kortið, segir Kjell-Arne Ottosson í Flokkahópi miðjumanna.

Ríkisstjórnir eru opnar fyrir norrænni samgöngustefnu

Í dag er engin heildarstefna til fyrir norræna samgöngukerfið. En í svari sínu til Norðurlandaráðs opna samgönguráðherrarnir nú á það að setja saman norræna áætlun um langtímauppbyggingu tenginga yfir landamæri. Áætlunin myndi gefa heildarmynd af þeim innviðafjárfestingum sem þegar eru fyrirhuguðar á Norðurlöndum, án þess að koma í stað samgönguáætlana í löndunum.

Jouni Ovaska, Flokkahópi miðjumanna fagnar þessari afstöðu:

— Þetta eru jákvæðar fréttir. Næsta skref er að fara frá hugmynd yfir í framkvæmd.


Engin ráðherranefnd um samgöngumál í sjónmáli

Þrátt fyrir að þetta lofi góðu er mikið ógert svo flýta meigi fyrir samþættingu norrænna samgangna.Flokkahópur miðjumanna telur að Norðurlöndin þurfi á að halda ráðherranefnd um innviði og samgöngur en þrátt fyrir að Norðurlandaráð hafi lengi óskað eftir því hefur ríkisstjórnunum ekki enn tekist að koma sér saman um að stofna slíkrar nefndar.

– Okkur vantar ráðherranefnd um samgöngur. Það myndi bæta og hagræða samgöngu- og samskiptasamstarf Norðurlandanna, segir Kjell-Arne Ottosson.

Á myndinni frá vinstri: Kjell-Arne Ottosson og Jouni Ovaska