Birt 28.02.2025

Norðurlandabúar þurfa fréttir

Flokkahópur miðjumanna vill varpa ljósi á hver sé staða óháðra fjölmiðla og fréttablaðamennsku á Norðurlöndum. Í tengslum við febrúarfundi Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn kom flokkahópurinn sér saman um tillögu sem kallar á rannsókn þess. Tilgangurinn er að aðgangur að frjálsum, óháðum fjölmiðlum og góðu blaðamannasiðferði sé tryggður á Norðurlöndum.

Hæfni fólks til að nálgast nákvæmar upplýsingar, rannsóknarblaðamennsku og málefnalega opinbera umræðu skiptir sköpum fyrir stofnun og virkni lýðræðis. Skýrslur um málefnið sýna meðal annars að sk. „fréttaeyðimerkur“ – þ.e. svæði sem skortir raunhæfar, áreiðanlegar og fjölbreyttar upplýsingar frá trúverðugum fréttaveitum – eru að breiðast út. það eru stór svæði sem endurspeglast ekki blaðamannalega séð. Fjölbreytni innan fréttamiðla hefur einnig minnkað með tímanum. Flokkahópur miðjumanna vill undirstrika þetta.

– Jafnvel þó að hér á Norðurlöndum séu sterkar hefðir fyrir tjáningar- og fjölmiðlafrelsi og frjálsum fjölmiðlum eru áskoranirnar líka miklar. Sem dæmi um það hefur um helmingur allra staðbundinna fréttaveitenda í Svíþjóð horfið á síðustu 20 árum, segir sænska þingkonan Catarina Deremar, sem jafnframt er meðlimur í Flokkahópi miðjumanna.

Fréttamiðlar þurfa að vera frjálsir og pólitískar ákvarðanir ættu ekki að ráða því hvernig þeir bregðast við. Jafnframt eru þeir mikilvægur hluti af lýðræði okkar. Frumkvæði Flokkahóps miðjumanna miðar því að því að kanna og bera saman hvernig aðstæður fréttamiðla eru á  Norðurlöndunum og athuga hvort þeir geti lært hver af öðrum. Eitt markmiðanna er að stuðla að opinni umræðu um málefnið.

– Þetta er lykilatriði fyrir lýðræðisríki okkar. Við þurfum að geta rætt þetta og ég held að það sé líka mikilvægt fyrir fréttamiðlana okkar að þessi umræða eigi sér stað, segir Catarina Deremar.

Flokkahópur miðjumanna vill einnig fá samanburð á því hvernig Norðurlöndin skapi vinnuumhverfi sem stuðlar að góðu blaðamannasiðferði.

Tillagan verður lögð fyrir Norrænu þekkingar- og menningarnefndina. Í sömu nefnd leggur Flokkahópur miðjumanna einnig fram nýja tillögu um auknar rannsóknir í tengslum við alþýðumenntun og málefni borgaralegs samfélags.

Mynd: Catarina Deremar