Birt 09.04.2024

Nú er kominn tími til að uppfæra Helsingforssamninginn

Flokkahópur miðjumanna telur að það verði að nútímavæða Helsingforssamninginn. Það felast bæði áhættur og tækifæri í því að opna samninginn en Flokkahópur miðjumanna telur að tækifærin nú séu meiri en áhættan. Án uppfærslu samningsins er hætta á að norrænt samstarf staðni og missi mikilvægi sitt.

Það eru til fjölmargir norrænir samningar og þarfnast margir þeirra endurskoðunar. Gott dæmi um það er norræni skattasamningurinn sem lagt er til að verði uppfærður, meðal annars til að gera fólki kleyft að vinna í fjarvinnu yfir landamæri.

Helsingforssamningurinn leggur grunninn að öðrum norrænum samningum. Fyrir tveimur árum, árið 2022, var haldið upp á 60 ára afmæli hans. Samningurinn hefur fengið viðbætur nokkrum sinnum í gegnum árin, en ítarleg endurskoðun – með tilheyrandi umræðum um samninginn í heild og hlutverk hinna miðlægu stofnana norræna samstarfsins, Norðurlandaráðs og Norrænu ráðherranefndarinnar – hefur aldrei farið fram. Þetta hefur leitt til þess að norrænt samstarf hefur að einhverju leyti verið eftirbátur annars alþjóðlegs samstarfs á undanförnum áratugum, þrátt fyrir að norrænt samstarf sé í auknum mæli mikils metið á heimsvísu.

Kröfurnar um að bæta við og uppfæra Helsingforssamninginn hafa orðið æ sterkari eftir að Rússar hófu árásarstríð sitt gegn Úkraínu og festu þannig í sessi breytta stöðu í öryggismálum. Norrænt samstarf er nú talið enn mikilvægara. Kröfur um endurnýjun Helsingforssamningsins hafa komið úr mörgum og ólíkum áttum: frá almenningi, fólki sem sinnir rannsóknum, fulltrúum atvinnulífsins  og frá ungum stjórnmálamönum sem og „öldungum“ hins norræna samstarfs.

Síðan í upphafi annars áratugs þessarar aldar hefur norrænt samstarf fengið endurreisn á mörgum vígstöðvum. Varnarsamstarfið, með tilkomu Nordefco árið 2009, hefur kannski verið hvað öfluguasti hluti norræns samstarfs. Stoltenberg-skýrslan frá 2009 ruddi brautina fyrir aukna umræðu um sameiginlegt öryggi á Norðurlöndum og styrkti viðleitni til samstöðu um utanríkisstefnu landanna. Stækkað og breytt ESB, án Bretlands, hefur aukið eftirspurn eftir svæðisbundnu EES/ESB-samstarfi milli Norðurlanda og annarra álíka ríkja. Framtíðarsýn um Norðurlönd sem samþættasta og sjálfbærasta svæði heims frá 2019 hefur gefið norrænu samstarfi  nýjan mátt og stefnu sem slíkt. Aukin geopólitísk áhersla á Færeyjar, Grænland og Álandseyjar undirstrikar þörfina á að yfirfara hlutverk þeirra í hinu norræna samstarfi.

En, sem stendur eru þó takmörk fyrir því hverju samstarfið getur áorkað. Takmörkunina er að finna í Helsingforssamningnum sem veitir ekki hinum starfandi sameiginlegu stofnununum, umboð til að stunda að fullu samstarf á sviði utanríkis-, öryggis- og varnarmála.

Ábyrgðin er nú hjá innlendum aðilum (þjóðanna) ogyfirvöldum. Það vantar bæði þinglega samstöðu og „norræna ráðherranefnd“ (Norrænu ráðherranefndina) sem kemur fram með ný frumkvæði sem ríkisstjórnir geta síðan tekið ákvörðun um. Norðurlandabúar kunna að meta norrænt samstarf. Það er á ábyrgð stjórnmálamanna að stjórna og gera það mat þeirra áþreifanlegt. Ábyrgðin skyldar okkur til að bregðast við núna og tryggja að hornsteinn norræns samstarfs, Helsingforssamningurinn, sé staddur á sama stað og Norðurlöndin eru, tilbúin fyrir áskoranir nútímans og framtíðarinnar og geti tekið forystu þegar þörf er á.