Birt 12.02.2024

Tímabært að Norðurlandabúar hafi sterkari rödd í Evrópu

Flokkahópur miðjumanna vill að Norðurlandabúar eigi meira samstarf um málefni ESB. Bæði með því að hafa áhrif á framtíðarlöggjöf og, ef þörf krefur, hvenær sett lög eiga að koma til framkvæmda.

Norðurlöndin þurfa að efla samstarf sitt um málefni tengd ESB. Þetta er álit Flokkahóps miðjumanna sem hefur samþykkti að leggja þingmannatillögu þess efnis fyrir Norðurlandaráð. Í tillögunni er meðal annars talið að regluleg samræming þurfi að vera á milli norrænu samstarfsráðherranna og þeirra norrænu ráðherra sem fara með málefni ESB. Þá er lögð áhersla á að Norðurlöndin upplýsi hvert annað um lagasetningar meðan þær eru á frumstigi. Sameiginlega ættu Norðurlöndin að hafa áhrif bæði á framtíðarlöggjöf ESB og að taka þátt í viðræðum um málefni sem varða framkvæmd hennar.

– Ekki eru öll Norðurlönd aðilar að ESB, þau finna þó öll fyrir miklum áhrifum af ákvörðununum sem teknar eru innan ESB. Því er rökrétt að Norðurlöndin taki þátt þannig að norrænt sjónarhorn sé til staðar í þeirri vinnu og að ákvarðanirnar verði sem bestar fyrir Norðurlöndin, segir Hanna Katrín Friðriksson, sem er formaður Flokkahóps miðjumanna.

– Við þurfum að verða virkari og tala enn frekar sameiginlegri röddu í ESB-málum sem okkur varða. Þá er einnig mikilvægt að ESB-samstarfið þróist ekki á þann veg að náið samstarf Norðurlandanna verði erfiðara.

Forðumst nýjar landamærahindranir með því að innleiða löggjöf í sameiningu

Mikilvægt er að ræða mál sem tengjast innleiðingu löggjafar ESB þar sem þau hafa oft áhrif á daglegt líf fólks. Velji Norðurlöndin mismunandi leiðir til að innleiða löggjöf ESB gæti verið hætta á að nýjar landamærahindranir verði til innan Norðurlanda. Sænski þingmaðurinn Anna Starbrink, sem hefur verið útnefnd ESB skýrslugjafi Norðurlandaráðs telur að málefni ESB þurfi að vera á dagskrá Norðurlandanna:

– Með því að fylgjast betur með því sem er að gerast í ESB – til dæmis áætlun framkvæmdastjórnar ESB til næstu ára – og með því að halda fundi þar sem við getum rætt norrænar áherslur og sjónarmið getum við eflt áhrif okkar og forðast það að teknar verði ákvarðanir sem geta skapað landamærahindranir eða aðra erfiðleika fyrir okkar eigin lönd.

Tillagan er lögð fram skömmu eftir að Norræna ráðherranefndin tilkynnti að úttekt á vinnunni um afnám stjórnsýsluhindrana ætti að fara fram og skömmu eftir að finnska ríkisstjórnin hafði samþykkt viljayfirlýsingu um fyrirbyggjandi ESB-starf sem felur í sér tíð samráð við aðra hagsmunaaðila og sérstaklega hin Norðurlöndin.

Í þingmannatillögunni skrifar Flokkahópur miðjumanna meðal annars: „Norðurlönd ættu að vinna saman að því að vernda norræna hagsmuni og leitast við að hafa mikil áhrif á þær ákvarðanir sem teknar eru í ESB. „ Að þörf sé á auknu samstarfi um málefni tengd ESB er eitthvað sem Flokkahópur miðjumanna hefur ítrekað bent á.

Flokkahópur miðjumanna samþykkti þingmannatillöguna í tengslum við febrúarfundi Norðurlandaráðs sem fóru fram í Stokkhólmi 5.–6. febrúar sl.  Nú þarf að leggja tillöguna fram og er gert ráð fyrir fyrstu umræðu um hana í tengslum við þemaþing Norðurlandaráðs í Færeyjum í apríl nk.