Birt 07.09.2021

Flokkahópur miðjumanna gagnrýnir fjárhagsáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar

Í viðræðum við norrænu ráðherranefndina um fjárhagsáætlun 2022, hefur Flokkahópur miðjumanna óskað eftir bæði mati á áhrifum á hvað hinn tiltölulega mikli niðurskurður á fjármunum til menningarmála þýðir fyrir alla þá starfsemi sem það hefur áhrif á, sem og ítarlegri upplýsingum um hina nýju, grænu framtíðarsýn sem fjármagna á með niðurskurði til menningarmálanna. Flokkahópurinn hefur, ásamt öðrum flokkahópum í Norðurlandaráði, sagt að hann geti ekki samþykkt fjárhagsáætlunina fyrir árið 2022 eins hún er sett fram núna.

– Við erum ekki á móti hinni nýju sýn eða grænum fjárfestingum. En við getum ekki sætt okkur við þann forgang í niðurskurði sem ráðherranefndin hefur samið um. Okkur þykir við ekki hafa fengið nægjanlegar upplýsingar til að geta samþykkt niðurskurðinn í aðstæðum þar sem við vitum að mikið af starfseminni sem nú er hótað niðurskurði er háð fjármagni frá ráðherranefndinni, segir Linda Modig, formaður Flokkahóps miðjumanna og sem einnig er fulltrúi flokkahópsins í fjárlagahópi Norðurlandaráðs.

Formaður í viðræðum við ráðherranefndina er Bertel Haarder, forseti Norðurlandaráðs. Hann hefur komið á framfæri við ráðherranefndina þeim áhyggjum sem Norðurlandaráð hefur haft af þessum niðurskurði en einnig á hvaða hátt á að gera Framtíðarsýn til 2030 að veruleika. Það hefur verið gert með því að skera niður í þeim greinum sem mynda hið norræna samfélag, nefnilega á menningarsviðinu og í granntungumálakennslunni.

– Við vitum hvað við höfum, en ekki hvað við fáum. Til að fá samþykki Norðurlandaráðs þarf ráðherranefndin að veita mun nákvæmari upplýsingar. Sem kjörinn fulltrúi verður maður að vera sannfærður um að endurskipulagning fjárhagsáætlunarinnar sé þess virði að framkvæma – að ábati fyrir Norðurlöndin vegi þyngra en fyrirhugað tap. Það erum við ekki núna, segir Bertel Haarder, sem einnig er varaformaður Flokkahóps miðjumanna.

Flokkahópurinn mun halda stafrænan fund 6. september í tengslum við haustfund Norðurlandaráðs. Fundarstjóri er formaðurinn Linda Modig. Á dagskrá eru, auk viðræðna um fjárhagsáætlunina við Norrænu ráðherranefndina, nýjar þingmannatillögur, skipun í nefndir fyrir árið 2022 og umræða um ESB skrifstofur Norðurlandaráðs sem hætta er á að verði lokað.