Birt 20.06.2022

Norðurlandaráð þarf að takast á við afleiðingar stöðunnar í öryggis og varnarmálum

Hin nýja staða í öryggis og varnarmálum hefur einnig áhrif á norrænt samstarf. Flokkahópur miðjumanna hefur lagt til að Norðurlandaráð breyti skipulagi sínu til að geta tekið skilvirkari ákvarðanir í utanríkis-, öryggis- og varnarmálum.

„ Innrás Rússa í Úkraínu, sem er í bága við alþjóðalög, hefur sett Evrópu í ótryggustu stöðu frá lokum síðari heimsstyrjaldar“.  Á þann veg hefst þingmannatillaga Flokkahóps miðjumanna sem nú hefur verið lögð fram til frekari meðhöndlunar innan Norðurlandaráðs. Flokkahópurinn telur að hin nýja staða í öryggis og varnarmálum ásamt umsókn Finnlands og Svíþjóðar um aðild að NATO eigi einnig að leiða til nýrra vinnubragða innan Norðurlandaráðs.

Flokkahópur miðjumanna kallar eftir endurskoðun á vinnubrögðum og skipulagi innan Norðurlandaráðs. Í framtíðinni, þegar Norðurlöndin verða öll aðilar að NATO og eftir að hafa gengið í gegnum heimsfaraldur, telur flokkahópurinn að ástæða sé til öflugra norræns samstarfs um öryggis- og varnarmál. Endurskoðunin fari fram í nánu samstarfi við aðildarþing Norðurlandaráðs.

Frá því um aldamót hefur nokkrum sinnum verið umræða bæði í Norðurlandaráði og í ráðherranefndinni um að styrkja hlutverk öryggisstefnunnar. Norðurlandaráð hefur tvisvar áður fjallað um stofnun sérstakrar nefndar um utanríkis-, öryggis- og varnarmál. Samtímis á sér stað norrænt samstarf, svo sem varnarmálasamstarfið Nordefco og einnig skipuleggur Norðurlandaráð árlegar hringborðsumræður með ríkisstjórnunum og þingunum um öryggis- og varnarmálefni. Að mati flokkahóps miðjumanna er þetta þó ekki nóg til að mæta þörfinni fyrir gagnsærri, norrænar umræður um sameiginleg öryggismál.

Mynd: Framkvæmdastjóri NATO tekur við aðildarumsóknum Finnlands og Svíþjóðar. (Mynd: NATO)