Birt 22.03.2022

Stríð Pútíns ögrar norræna velferðarmódelinu

Ræða Flokkahóps miðjumanna í umræðum um Norræna velferðarmódelið og framtíð þess, flutt af Hönnu Katrínu Friðriksson á þemaþingi Norðurlandaráðs í Malmö 22.3.2022.

Kæri forseti,

Norræna velferðarkerfið hefur fyrir löngu sannað gildi sitt. Það er þó ljóst að við stöndum frammi fyrir stórum áskorunum og það er viðvarandi viðfangsefni hvernig við mætum þeim.

Áskorun sem við öll þekkjum felst í því að á næstu árum mun lýðfræðileg þróun á Norðurlöndum hafa í för með sér aukin útgjöld til heilbrigðismála og annarra velferðarmála. Hvernig undirbúum við okkur undir það? Hvernig tryggjum við getu norræna líkansins til að tryggja öllum alhliða velferð? 

Það er því miður ekki bara lýðfræðileg þróun sem skapar þessa pressu. Ófyrirgefanlegur stríðsrekstur Pútínstjórnarinnar í Úkraínu hefur hrakið fjórðung úkraínsku þjóðarinnar á flótta frá heimilum sínum, 10 milljónir manns!

Kæru norrænu vinir,

Önnur ríki heims líta gjarnan til Norðurlanda sem fyrirmyndar í velferðarmálum. Mér finnst það mjög aðkallandi spurning nú hvernig við getum unnið að auknum framgangi norrænna gilda á alþjóðavettvangi? 

Norrænt velferðarkerfi snýst í grunninn um að slá skjaldborg um jafnréttið, öryggið, lýðræðið og mannréttindin. Nú þarf að útvíkka þessa skjaldborg og þangað þarf öll okkar orka og vit að beinast á næstunni.