Birt 23.08.2023

Rætt um framtíð Helsingforssamningsins í Ósló

Vinna við að endurskoða grundvallarsáttmála Norðurlandaráðs, Helsingforssamninginn, er hafin. Fulltrúar Norðurlandaráðs hittust í norska Stórþinginu sl. þriðjudag til að ræða framhald endurskoðunarinnar. Skipaður hefur verið starfshópur sem fær rúmt ár til að vinna að þessu framtíðarmálefni fyrir norrænt samstarf.

Flokkahópur miðjumanna hefur oft lagt áherslu á nauðsyn nútímavæðingar Helsingforssamningsins. Nú hefur Norðurlandaráð skipað starfshóp til að vinna að málinu fram að þingi Norðurlandaráðs á Íslandi árið 2024. Síðast liðinn þriðjudag hélt hópurinn sinn fyrsta fund í Stórþinginu í Ósló. Þrír úr flokkahóp miðjumanna tóku þátt: Johan Dahl, Mikael Lindholm og Hanna Katrín Friðriksson, sem jafnframt var kjörin varaformaður starfshópsins.

Tæp 30 ár eru liðin frá því að Helsingforssamningurinn var síðast endurskoðaður. Í millitíðinni hefur margt gerst bæði á Norðurlöndunum og í heiminum öllum og er það ein af ástæðunum fyrir því að Flokkahópur miðjumanna óskaði eftir endurskoðun samningsins. Auk þess verða öll Norðurlöndin bráðum orðin aðilar að NATO, sem einfaldar varnarsamstarf Norðurlandanna. Einnig á því sviði hefur Flokkahópur miðjumanna lengi óskað eftir möguleika á nánara norrænu samstarfi.

– Það er ekki auðvelt verk að breyta samningi sem margir telja að hafi reynst okkur vel. En við í Flokkahóp miðjumanna teljum að norrænt samstarf standist ekki væntingar norrænna borgara um þessar mundir og við sem kjörnir fulltrúar teljum okkur skylt að gera betur. Nú er drifkraftur fyrir ítarlega umræðu um framtíð norræns samstarfs og hlutverk hinna ýmsu aðila, segir Hanna Katrín Friðriksson.

Flokkahópur miðjumanna mun halda áfram vinnu sinni að Helsingforssamningnum og mun meðal annars ræða málið þegar Norðurlandaráð kemur saman til haustfunda sinna í Kaupmannahöfn 4.-5. september.